fbpx
Fimmtudagur, júní 13, 2024
HeimFréttirStjórn Leikfélags Hafnarfjarðar leggur til að félaginu verði slitið

Stjórn Leikfélags Hafnarfjarðar leggur til að félaginu verði slitið

Langvarandi húsnæðisleysi og áhugaleysi stjórnvalda verður oft banabiti áhugaleikfélaga

Stjórn Leikfélags Hafnarfjarðar hefur sent bæjarstjórn og menningarmálanefnd bréf undir yfirsögninni: „Fyrirhuguð endalok starfsemi Leikfélags Hafnarfjarðar.“

Þar kemur fram að á aðalfundi félagsins sem halda á í lok mánaðarins muni stjórnin bera þá tillögu upp við fundinn að starfsemi leikfélagsins verði lögð niður.

Leikfélag Hafnarfjarðar var stofnað árið 1936 og hefur starf þess verið mjög öflugt á köflum en húsnæðisskortur hefur oft lamað starfsemi félagsins.

Eftir að félagið hraktist úr samstarfi um notkun á húsnæði við Víkingastræti hefur félagið verið í litlu húsnæði í gamla Lækjarskóla og í stuttan tíma í kapellu St. Jósefsspítala en hefur verið algjörlega húsnæðislaust undanfarin ár.

Hefur félagið þurft að henda miklu af leikmunum þess vegna líka.

Hafnarfjarðarbær hefur oft tekið vel í beiðni félagsins um húsnæði en efndirnar hafa ekki verið neinar og núna er greinilega komið að þolmörkum á meðan byggt og leigt er fyrir gríðarlegar upphæðir fyrir aðra tómstundastarfsemi.

Í bréfinu segir m.a.:

„Frá hausti 2021 hefur starfsemi LH verið takmörkuð. Einungis ein leiksýning í fullri lengd hefur verið sett upp, auk nokkurra stuttverka, og hefur LH þurft að leita í önnur bæjarfélög eftir æfinga- og sýningarhúsnæði. Leikfélag Kópavogs hefur reynst okkur hinn besti stuðningsaðili. Höfundasmiðja LH hefur verið mjög virk og átt afdrep í heimahúsi á Völlunum. Leikfélagið hefur þar að auki tekið þátt í starfsemi á vegum Bandalags íslenskra leikfélaga og félagar hafa sótt nám í leiklistarskóla bandalagsins.“

Áhugaleysi stjórnvalda

Í bréfinu segir að langvarandi húsnæðisleysi og áhugaleysi stjórnvalda verði oft banabiti áhugaleikfélaga í íslenskum sveitarfélögum. „Til þess að áhugaleikfélag geti þrifist innan bæjarfélags sem raunhæfur valkostur fyrir íbúa, hvort sem er til þess að taka þátt í starfseminni eða njóta afraksturs hennar, þarf það að hafa aðgang að aðstöðu allan ársins hring. Ef ekki er hægt að bjóða félögum upp á reglubundið félagsstarf, halda námskeið og hafa aðstöðu til æfinga er sjálfgefið að fólk gefst upp, vindurinn fer úr seglunum.“

Fram kemur að leiksýningar og námskeiðahald séu eina tekjuleið leikfélaga, bæði í formi aðgangseyris og styrkja, auk félagsgjalda.

„LH hefur alltaf lagt áherslu á að halda félagsgjöldum í skefjum til þess að gera öllum kleift að taka þátt í starfseminni. Það liggur í augum uppi að lítið áhugaleikfélag hefur ekki burði til þess að standa eitt undir leigu á húsnæði, þó ekki þurfi stóra aðstöðu til þess að gera stóra hluti.“

Er það mat stjórnar LH, sem byggi á reynslu sl. áratugar, að Hafnarfjarðarbær sjái ekki ávinning í því að styðja áhugaleikstarfsemi í bænum.

„Það er ekki nýtt í tæplega níutíu ára sögu leikfélagsins, enda hefur það þurft að keppa við aðra mikilvæga tómstunda- og lýðheilsustarfsemi sem hefur miklar og sterkar rætur í bæjarfélaginu, sem og atvinnustarfsemi á sviði leiklistar.“

Segir í bréfinu að aðgengi almennings að áhugaleikfélögum sé vissulega lýðheilsumál, enda fátt betra fyrir andlega og félagslega heilsu fólks en þátttaka í sköpun listar og menningar á eigin forsendum ásamt öðru fólki með sömu ástríðu og áhuga. „Það er ekkert sem kemur í staðinn fyrir áhugaleikhús og þar sem þau hverfa af vettvangi verður menning og saga sveitarfélagsins fátækari fyrir vikið.“

LH var stofnað haustið 1936 í Hafnarfirði og hefur í gegnum tíðina átt sinn sess í menningarflóru bæjarins. Það hefur fóstrað margt leikaraefnið og glatt margan Hafnfirðinginn og borið hróður sinn og sinnar heimabyggðar víða. LH hefur í gegnum árin getið sér gott orð fyrir að hafa haft á að skipa valinkunnu liði leikara, leikstjóra og handritshöfunda og metnað í uppsetningum verka, enda hafa sýningar þess verið valdar til uppsetningar í Þjóðleikhúsinu og á virtum alþjóðlegum leiklistarhátíðum erlendis.

Segir í bréfinu að það sé því ekki auðvelt skref að taka að leggja niður LH, en stjórn telji ekki grundvöll fyrir rekstri félagsins að öllu óbreyttu og að hæfileikar félagsmanna muni njóta sín betur á öðrum vettvangi. Samþykki aðalfundur LH tillögu stjórnar um að félagið hætti starfsemi munu eignir þess verða afhentar bæjarstjórn Hafnarfjarðar til varðveislu í samræmi við 12. grein laga félagsins.

Ársæll Hjálmarsson starfandi formaður Leikfélags Hafnarfjarðar skrifar undir bréfið f.h. stjórnar þess.

Bæjarstjórn samþykkti að boða forsvarsmenn Leikfélags Hafnarfjarðar á næsta fund bæjarráðs og/eða menningar- og ferðamálanefnd

Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar óskuðu eftir umræðu um málið á síðasta bæjarstjórnarfundi og lögðu fram eftirfarandi tillögu: „Bæjarstjórn samþykkir að boða forsvarsmenn Leikfélags Hafnarfjarðar á næsta fund bæjarráðs til þess að ræða þá stöðu sem uppi er í starfsemi leikfélagsins. Þar verði leitað leiða til þess að leysa hið fyrsta húsnæðisvanda Leikfélags Hafnarfjarðar og tryggja þannig áframhaldandi starfsemi félagsins.“

Eftir nokkra umræðu var tillagan samþykkt með þeirri breytingu að forsvarsmenn Leikfélagsins væru boðaðir á næsta fund bæjarráðs og/eða menningar og ferðamálanefndar.

Húsnæðismál Leikfélags Hafnarfjarðar er því enn og aftur komin til umræðu í stjórnkerfi Hafnarfjarðar.

Leggst þokkalega í formanninn

Ársæll Hjálmarsson, starfandi formaður Leikfélags Hafnarfjarðar, sagði í samtali við Fjarðarfréttir, samþykkt bæjarstjórnar leggjast þokkalega í sig. Sagði hann að stjórn félagsins ætti eftir að taka formlega afstöðu til hennar og að fólk væri orðið langþreytt, ekki síst þeir sam hafa setið marga fundi með fulltrúum Hafnarfjarðar um málið án nokkurs árangurs.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2