fbpx
Þriðjudagur, mars 5, 2024
HeimFréttirSkipulagsmálHafnarfjarðarvegur í stokk í Garðabæ?

Hafnarfjarðarvegur í stokk í Garðabæ?

Batteríið sigraði í samkeppni um rammaskipulag á Lyngássvæðinu

Garðabær leggur áherslu á spennandi íbúðarbyggð sem hentar ungu fjölskyldufólki í hæfilegri blöndu við verslun, þjónustu og skrifstofubyggingar á Lyngássvæðinu. Efnt var til opinnar samkeppni um ramma­skipulag svæðisins og skiluðu 11 inn tillögum.
Batteríið Arkitektar, Landslag og Mannvit áttu bestu tillöguna að mati dómnefndar sem segir hana hnýta saman Lyngássvæðið, Hraunholtslæk og Hafnarfjarðar­veg á sannfærandi hátt.

Tillagan gerir ráð fyrir að Hafnarfjarðarvegur verði settur í lokaðan stokk allt frá Hraunsholti að Litlatúni en að gamli Hafnar­fjarðarvegurinn haldi sér sem innanbæjarvegur í Garðabæ.

Lögð er áhersla á að Hraunholtslækurinn njóti sín.
Lögð er áhersla á að Hraunholtslækurinn njóti sín.

Umsögn dómnefndar um vinningstillöguna:

Tillagan byggir á sterkri heildarsýn sem hnýtir saman Lyngássvæði, Hraunsholtslæk og Hafnarfjarðarveg á sannfærandi hátt. Höfundar gera ráð fyrir stokkalausn allt frá Litlatúni suður að Hraunsholti og skapa um leið góða götumynd við Hafnarfjarðarveg. Jafnframt gengur tillagan upp án stokkalausnar. Við miðsvæðið er vel útfært torg með tjarnarsvæði mótað af Hraunsholtslæk. Þar er einnig gert ráð fyrir blandaðri byggð, samgöngumiðstöð og bílastæðakjallara sem hægt er að samnýta Ásgarði á álagstímum.

Batteri_Lyng_2Tillaga að nýrri aðkomu að Grundum gefur Hraunsholtslæk aukið vægi þar sem lækjarsvæðið myndar óslitinn grænan ás niður að Sjálandi með opnum tengingum við íbúðabyggð Lyngássvæðis. Íbúðabyggðin skartar fjölbreyttum húsaþyrpingum með skjólgóðum og sólríkum innigörðum auk góðra vegtenginga sem auðveldar umferðarflæði um hverfið og tengir vel við aðliggjandi byggð.

Hugmynd að útliti Flesjutorgs
Hugmynd að útliti Flesjutorgs

Gönguleið frá efri Ásum niður að Hraunsholtslæk í gegnum Lyngáshverfið tengir saman græn svæði íbúðabyggðarinnar og myndar áhugaverðar tengingar á milli húsa. Hins vegar er byggingarmassi og þéttleiki hverfisins heldur mikill og auka þyrfti hlutfall smærri húsagerða og fjölbreytni. Hlutfall bílastæða neðanjarðar er fremur hátt og huga þyrfti að fjölbreyttari bílastæðalausnum. Tillagan er mjög vel unnin og fallega framsett með einföldum og góðum skýringarmyndum.

Sú heildarsýn sem sett er fram í tillögunni svarar að mati dómnefndar best flestum af þeim áherslum sem settar eru fram í keppnislýsingu. Umferðar- og göngutengingar, útfærsla grænna svæða og byggð við Hafnarfjarðarveg eru sérstaklega vel leyst í tillögunni.

Vinningshópurinn f.v.: Þráinn Hauksson, Jón Rafnar Benjamínsson, Bergdís Bjarnadóttir, Jóhanna Helgadóttir, Ólöf Kristjánsdóttir, Sigurður Einarsson og Gísli Rafn Guðmundsson
Vinningshópurinn f.v.: Þráinn Hauksson, Jón Rafnar Benjamínsson, Bergdís Bjarnadóttir, Jóhanna Helgadóttir, Ólöf Kristjánsdóttir, Sigurður Einarsson og Gísli Rafn Guðmundsson

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2