fbpx
Mánudagur, október 7, 2024
HeimFréttirPólitíkSamfylkingin leggur til að útsvarsprósenta verði hækkuð til að styrkja stöðu bæjarsjóðs

Samfylkingin leggur til að útsvarsprósenta verði hækkuð til að styrkja stöðu bæjarsjóðs

Við framlagningu tillögu að fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar á fundi bæjarstjórnar 13. nóvember sl. hafði hún legið tilbúin frá því að hún hafði verið samþykkt í bæjarráði tæpri viku áður. Leynd hvíldi þó yfir tillögunum og vísað í reglur Kauphallarinnar.

Leynd á röngum forsendum

Þar er ekkert sem segir að leynd skuli hvíla yfir tillögum að fjárhagsáætlun Hafnarfjarðarbæjar vegna skuldabréfa sem bærinn á í Kauphöllinni heldur er aðeins gerð sú krafa að Kauphöllin fái sömu upplýsingar eigi síðar en þær séu gerðar opinberar.

Því voru tillögur að fjárhagsáætlun hvorki gerði opinber né kynnt bæjarbúum áður en hún kom til lögformlegrar umræðu í bæjarstjórn.

Þó var hún kynnt af sviðsstjórum og fl. fyrir bæjarfulltrúum á lokuðum fundi sem var strax áður en umræður hófust í bæjarstjórn.

Því var eins og vænta mátti lítið um umræður um tillögurnar aðrar en þær að bæjarstjóri kynnti lauslega helstu tölur og vísaði í nánari kynningu við seinni umræður – en þá fer einnig fram atkvæðagreiðsla um tillögurnar. Fulltrúar minnihlutaflokkanna lögðu fram nokkrar tillögur og þar kom fram, öndvert við tölu og greinargerð meirihlutans, að staða bæjarsjóðs sé ekki sterk.

Fjárhagsstaða mjög sterk en teikn á lofti að sögn bæjarstjóra

Í máli Rósu Guðbjartsdóttur bæjarstjóra kom fram að vinna við gerð fjárhagsáætlunarinnar hafi hafist fyrr en oft áður og að fleiri fundir hafi verið haldnir í ráðum um áætlunina en áður og þakkaði hún góða vinnu við gerð hennar.

Hún sagði að fjárhagsstaða Hafnarfjarðarkaupstaðar væri mjög sterk þrátt fyrir stóra óvissuþætti eins og lausa kjarasamninga en 53% af heildartekjum bæjarsjóðs fara til launagreiðslna.

Hún sagði okkur búa við það að það séu óvissutímar í þjóðfélaginu, samdráttur og einhver óvissa um hagræna þætti í efnahagslífinu. Sagði hún að hægt hafi á þeirri uppsveiflu sem verið hafi undanfarin ár en sérfræðingar hafi spáð að sú lægð sem nú vari verði ekki djúp og að aftur fari að lagast eftir um ár ef marka megi þessar spár.

Sagði hún að sú fjárhagsáætlun sem lögð væri fram væri mjög varfærin. Vel hafi verið gefið í á meðan vel áraði til að bæta ýmsa þjónustu hjá Hafnarfjarðarbæ, ekki síst á sviði mennta- og lýðheilsumála.

12% veltufé frá rekstri

Í nýrri fjárhagsáætlun er gert ráð fyrir að veltufé frá rekstri verði 3,6 milljarður kr. eða um 12%. Er þetta lægri upphæð en verið hefur a.m.k. síðustu þrjú ár. Gert er ráð fyrir að nýta 3,1 milljarð kr. til fjárfestinga en búist er við að 1 milljarður kr. fáist fyrir sölu lóða.

15 milljón kr. rekstrarafgangur af A-hluta

Aðeins er gert ráð fyrir 14,6 millj. kr. rekstrarafgangi af A-hluta bæjarsjóðs sem er hinn eiginlegi rekstur sveitarfélagsins. Hins vegar er gert ráð fyrir 776,3 millj. kr. rekstrarafgangi af B-hluta fyrirtækjum, Hafnarsjóði, Húsnæðisskrifstofu, Vatnsveitu og Fráveitu sem er 31,3% af rekstrartekjum þessara stofnana.

Gert er ráð fyrir 2,9 milljarðs kr. fram­lagi jöfnunarsjóðs og því þarf lítið út af að bera til að rekstrarniðurstaða breytist en ávallt hefur verið erfitt að spá fyrir raunverulegu framlagi Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

45 milljarða skuldir og hafa hækki um 5,1 milljarð kr. frá 2017

Í árslok er reiknað með að skuldir og skuldbindingar verði um 45,4 milljarðar kr. þar sem langtímaskuldir eru 25,9 milljarðar kr. og lífeyrisskuldbindingar um 13,8 milljarðar kr.

Er því gert ráð fyrir að skuldi hækki um rúman 1,5 milljarð kr. miðað við áætlun fyrir 2019 og um 12,8% frá 2017 en frá því ári og til ársloka 2020 er gert ráð fyrir að heildarskuldir og skuldbindingar Hafnarfjarðarkaupstaðar hækki um 5,1 milljarð kr.

Skuldahlutfall 150,1%

Skv. tillögu til fjárhagsáætlunar er gert ráð fyrir að skuldahlutfall Hafnarfjarðarkaupstaðar verði 150,1%.

Áætlað er að skuldahlutfallið verði 154,4% í lok þessa árs en það var 159% í lok árs 2017.

En þar sem sveitarfélaginu er heimilt að draga m.a. skuldir vegna fjárfestinga vegna leigusamninga við ríkið þá verður til annað skuldahlutfall sem nefnist skuldaviðmið sem ekki má vera yfir 150% eins og kveðið er á um í reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga en þar stendur:

Til að ná markmiðum laga um fjárhagslega sjálfbærni og jafnvægi í rekstri skulu sveitar­stjórnir tryggja að:

Samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A- og B-hluta í reikningsskilum séu á hverju þriggja ára tímabili ekki hærri en sem nemur samanlögðum reglulegum tekjum (jafnvægisregla).
Heildarskuldir og skuldbindingar A- og B-hluta í reikningsskilum séu ekki hærri en nemur 150% af reglulegum tekjum samkvæmt þeim reikniaðferðum sem lýst er í IV. kafla reglugerðar þessarar (skuldaregla).

Í fjárhagsáætluninni er gert ráð fyrir að skuldaviðmiðið veði 105% í lok árs 2020.

Skrípaleikur um fasteignaskattana

Enn á ný er reynt að slá ryki í augum bæjarbúa með því að blanda saman sköttum og þjónustugjöldum. Kynnti Rósa Guðbjartsdóttir á bæjarstjórnarfundinum að „heildarálagnin fasteignagjalda muni lækka“ og blandar hún þá saman fasteignaskatti og gjöldum fyrir kalt vatn og fráveitu. Af hverju hún taki þá ekki með kostnað við heitt vatn inn í myndina er óskiljanlegt miðað við þessa aðferðarfræði en það er reyndar selt af Orku náttúrunnar.

Þetta var áður gert þegar álagningarprósenta fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði var hækkað en þá var vatns- og fráveitugjöld lækkuð sem þáverandi bæjarstjóri hafði sagt að væru oftekin, sem hlýtur að skilgreinast sem lögbrot.

Nú hefur álagningarstofn fasteignagjalda á íbúðarhúsnæði hækkað um 7,6% og engin áform eru um að lækka álagningarprósentuna sem er sú hæsta á höfuðborgarsvæðinu að Seltjarnarnesi undanskildu.

Sagði bæjarstjóri að komið væri á móts við íbúðareigendur með því að lækka álagningarhlutfall vatns- og holræsagjald en samt er áætlað að rekstur Vatnsveitu skili 37,2% hagnaði af tekjum og Fráveitan skili 45,6% hagnaði af tekjum.

Sveitarstjórnarráðuneytið hefur nýlega sent öllum sveitarfélögum erindi þar sem óskað er eftir að gjaldskrár vatnsveitna sveitarfélaganna verði yfirfarnar í kjölfar úrskurðar um óheimila arðgreiðslu og skilgreiningu á fjármagnskostnaði. Er jafnframt kallað eftir því að ráðuneytið verði upplýst með stuttri samantekt um þau atriði sem gjaldskrár vatnsveitna sveitarfélagsins er varða vatnsgjald, skv. 10 gr. laga um vatnsveitur sveitarfélaga, eru byggðar ár.

Gögn

Sjá má tillögu að fjárhagsáætlun HÉR.

Sjá má tillögu að málaflokkayfirliti HÉR

Sjá má greinargerð með fjárhagsáætlun HÉR.

 

Tillögur minnihlutaflokkanna

Adda María Jóhannsdóttir lagði fram tillögur Samfylkingarinnar að breytingum á tillögu að fjárhagsáætlun.

Hækkun útsvarsprósentu

Í tillögu 1 um nýtingu skattstofna er sagt að framlögð fjárhagsáætlun sýni að staða bæjarsjóðs sé ekki sterk. Við slíkar aðstæður sé eðlilegt að ákvörðun sem tekin var árið 2016 um lækkun á útsvarshlutfalli verði endurskoðuð. „Útsvarið er veigamesti tekjustofn sveitarfélaga og mikilvægt að það sé nýtt til að sinna þjónustu við íbúana“.

Því leggja fulltrúar Samfylkingarinnar til að Hafnarfjarðarbær nýti leyfilegt útsvarshlutfall til að styrkja stöðu bæjarsjóðs og bæta þjónustu.

Gjaldskrárhækkanir verði í samræmi við lífskjarasamninga

Í tillögu 2 um gjaldskrár er lagt til að fallið verði frá gjaldskrárhækkunum umfram það sem mælst sé til í yfirlýsingu Sambands íslenskra sveitarfélaga í tengslum við lífskjarasamninga.

„Samkvæmt tillögum sem fram koma í fjárhagsáætlun mun heimaþjónusta aldraðra og öryrkja hækka um 24% og ferðaþjónusta aldraðra um rúm 100%.“

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja til að gjaldskrárhækkanir á næsta ári styðji við lífskjarasamninga og verði ekki umfram 2,5%.

Vilja niðurgreiða strætókort fyrir börn að 18 ára aldri

Í tillögu 3 um niðurgreiðsla á strætókortum ítreka fulltrúar Samfylkingarinnar og endurflytja tillögu um niðurgreiðslu á strætókortum fyrir börn að 18 ára aldri.

„Mikilvægt er að jafna og auðvelda aðgengi ungmenna að tómstundum. Með því að niðurgreiða strætókort hvetjum við einnig til aukinnar notkunar á almenningssamgöngum og styðjum við umhverfissjónarmið.

Fyrir liggur kostnaðarmat á tillögunni og því leggjum við til að skoðaðir verði möguleikar á nýtingu og útfærslu hennar.

Vilja tengja upphæð frístundastyrkja eldri borgara við frístundastyrki barna

Í tillögu 4 um frístundastyrkir eldri borgara leggja fulltrúar Samfylkingarinnar til að frístundastyrkur eldri borgara verði hækkaður til samræmis við frístundastyrk barna og ungmenna eins og samþykkt var í bæjarstjórn þann 17. janúar 2018.

Skv. minnisblaði sviðsstjóra fjölskyldusviðs sem lagt var fram á fundi ráðsins þann 15. febrúar 2019 kemur fram að hækkun frístundastyrks eldri borgara úr 4.000 kr. á mánuði í 4.500 kr. á mánuði kosti tæplega 1,2 milljónir króna á ársgrundvelli.

Óskað er eftir að bæjarstjórn taki afstöðu til tillögunnar við afgreiðslu fjárhagsáætlunar.

Vilja leikskóla í Öldutúnsskólahverfi

Í tillögu 5 um uppbygging leikskóla í Öldutúnsskólahverfi telja tillögugjafar það ekki rétta forgangsröðun að fjölga plássum í Norðurbænum þar sem nú þegar séu of mörg pláss miðað við fjölda barna, á meðan pláss vanti í Öldutúnsskólahverfi.

Fulltrúar Samfylkingarinnar telja að næstu framkvæmdir við fjölgun leikskólaplássa eigi að vera í Öldutúnsskólahverfi. Leikskólaþjónusta á að vera nærþjónusta og styðja þannig við hugmyndir um þéttingu byggðar og umhverfissjónarmið.

Fulltrúar Samfylkingarinnar leggja því til að fallið verði frá því að fjölga vistunarplássum á Hjalla og þess í stað hafinn undirbúningur að uppbyggingu á leikskóla í Öldutúnsskólahverfi.

Miðflokkurinn vill hundasvæði minni hækkun á gjaldskrám

Sigurður Þ. Ragnarsson lagði fram tvær tillögur að breytingum á fjárhagsáætlun.

Í tillögu 1 um hundasvæði – aðstöðu og þrautabrautir gerir bæjarfulltrúi Miðflokksins þá tillögu að sett verði 1 milljón krónur í uppbyggingu hundasvæðisins við Hamranes.

Vill hann setja upp þrautabrautir og æfingaaðstöðu fyrir hafnfirska hunda og eigendur þeirra og bæta aðstöðu með uppsetningu skjólveggs. Með þessu tæki Hafnarfjörður ákveðna forystu sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu í aðstöðu sem yrði liður í bættri hundamenningu en hundahald er orðið afar fjölmennt útverusport.

Nefndi hann að árlegar tekjur Heilbrigðiseftirlitsins af hundahaldi hafnfirskra hundaaeigenda séu 9.408.000 kr. og að gjöld hafnfirskra hundaeigenda skili heilbrigðiseftirlitinu hagnaði uppá 1,1 milljón.

Bendir hann á að litlum sem engum fjármunum hafi verið varið við viðhald hundasvæðisins við Hamranes síðustu ár og sjáist þess merki.

Hækkanir til aldraðra og öryrkja verði ekki meiri en 2,5%

Bæjarfulltrúi Miðflokksins leggur til í ljósi lífskjarasamninganna að fyrirhugaðar hækkanir á félagslegri þjónustu við aldraða og öryrkja verði teknar til baka og að hækkanir þeirra verði ekki meiri en lífskjarasamningarnir segja til um eða 2,5%. Fyrirhugaðar hækkanir eru: Hækkun á leigu í félagslegum íbúðum um 21%, hækkun á heimaþjónustu um 24%, hækkun á ferðaþjónustu aldraðra um 104%, hækkun á tímabundinni stoðþjónustu fólks t.d. vegna slysa hækki um 16,1%.

Viðreisn vill 3 ný stöðugildi og lækkun á leigubílaakstri

Jón Ingi Hákonarson lagði fram breytingnartillögur Viðreisnar og sagðist gera sér fullkomlega grein fyrir að ekki sé mikið svigrúm til aukinna útgjalda.

  1. Tökum hækkun/leiðréttingu á leigubílaakstri eldri borgara á lengri tíma.
  2. Finnum leiðir til að auka við sálfræðiþjónustu við börn og unglinga um eitt stöðugildi.
  3. Fjölgum um 1 stöðugildi á skipulags og byggingarsviði.
  4. Ráðning verkefnastjóra til að flýta fyrir innleiðingu Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og Heimsmarkmiðanna

Önnur umræða 11. desember

Var tillögunum samhljóða vísað til áframhaldandi vinnu við fjárhagsáætlun í viðkomandi ráðum.

Var tillögu að fjárhagsáætlun 2020 og 2021 til 2023 svo vísað samhljóð til annarrar umræðu í bæjarstjórn sem fer fram 11. desember nk.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2