Fulltrúi í meirihlutanum á móti aðferðinni en samþykkti afgreiðsluna

Vill að íþróttamannvirki verði í umsjón og eigu sveitarfélagsins

Helga Ingólfsdóttir bæjarfulltrúi

Á átakafundi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar í gær var samþykktur viðauki við fjárhagsáætlun þar sem samþykkt var 51 millj. kr. kostnaður við endurbætur á Suðurgötu 31 sem tekið væri af hagnaði af sölu Straums.

Breyttur viðauki

Í viðaukanum sem lagður var fram í bæjarráði í síðustu viku var aðeins getið í skýringum að Hafnarfjarðarbær muni ekki byggja nýtt knatthús í Kaplakrika eins og áætlun gerði ráð fyrir. Þar kemur fram að gert væri ráð fyrir 200 milljónum króna í framkvæmdina árið 2018 en að fjárhæðinni verði þess í stað ráðstafað í samræmi við rammasamkomulag um eignaskipti og framkvæmdir við nýtt knatthús í Kaplakrika. Segir svo að þessi breyting hafi engin áhrif á rekstur, efnahag eða sjóðsstreymi.

Í viðaukanum sem lagður var fram í bæjarstjórn er hins vegar búið að setja þessa 200 millj. kr. tilfærslu inn í fjárfestingaráætlunina undir málaflokk 32 þar sem sýnd er breytingin að á móti komi eignaskipti skv. rammasamkomulagi við FH. Það vekur athygli að áfram stendur að þessi viðauki hafi verið lagður fram í bæjarráði 16. ágúst þó það hafi ekki verið sami viðauki.

Viðaukinn var samþykktur með 6 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar gegn 4 atkvæðum Samfylkingar, Bæjarlistans og Viðreisnar en fulltrúi Miðflokksins sat hjá við atkvæðagreiðsluna.

Helga Ingólfsdóttir lét bóka afstöðu sína

Helga Ingólfsdóttir gerði grein fyrir atkvæði sínu en hún hafði ekki setið síðasta fund bæjarstjórnar og tók því ekki þátt í afgreiðslu á tillögu um rammasamkomulag við FH. Hún hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að hún sé andsnúin þeirri leið sem nú er farin með því að kaupa eldri húsnæði af FH til að fjármagna byggingu þeirra á knatthúsi.

„Þessi viðauki sem hér er lagður fram í dag til samþykktar er að hluta til vegna ákvörðunar sem samþykkt var á síðasta bæjarstjórnarfundi hvað varðar breytingu fjárfestingaáætlun vegna byggingar nýs knatthúss. Ég tók ekki þátt í afgreiðslu málsins.

Ég er fylgjandi byggingu nýs knatthúss á athafnasvæði FH að Kaplakrika og tók þátt í undirbúningi þess verkefnis af einhug á síðasta kjörtímabili. Á síðasta kjörtímabili var ennfremur unnið að þeirri stefnumótun að íþróttamannvirki sem Hafnarfjarðarbær samþykkir að byggja verði að öllu jöfnu í 100% eigu sveitarfélagsins. Þetta er í samræmi við þróun í þeim sveitarfélögum sem við berum okkur saman við og ennfremur í samræmi við breytingar á rekstrarsamningum við íþróttafélög sem gerðir voru á síðasta kjörtímabili. Heilt yfir er markmiðið að tryggja jafnræði milli íþróttagreina og gegnsæi með þá fjármuni sem settir eru í uppbyggingu og rekstur íþrótta- og tómstundafélaga í bænum. Þessari stefnumótun hef ég tekið þátt í og ég byggi afstöðu mína til samþykkts rammasamkomulags við FH á því að ég tel farsælla að vinna áfram í samræmi við þá meginstefnu að fjárfestingar sem ráðist er í vegna uppbyggingar íþróttamannvirkja verði í umsjón og eigu sveitarfélagsins.“

 

Ummæli

Ummæli