
Utanríkisráðherrar Íslands, Færeyja og Grænlands undirrituðu í dag yfirlýsingu um að kannaðir verði kostir þess að gera þríhliða fríverslunarsamning milli landanna. Skipaður verður vinnuhópur með fulltrúum þjóðanna og mun hann koma saman í fyrsta skipti í Nuuk í Grænlandi í október.
Stjórnvöld í Færeyjum, Grænlandi og á Íslandi leggja ríka áherslu á aukið samstarf vest norrænu þjóðanna. Þingsályktanir þess efnis hafa verið samþykktar í öllum löndunum og tekur yfirlýsingin í dag mið af því. Í henni segir að aukið og nánara samstarf sé ekki síst mikilvægt í ljósi alþjóðlegrar vakningar um mikilvægi norðurslóða. Hagsmunir þjóðanna fléttist saman á margvíslegan og brýnt sé að skilgreina sameiginlega viðskiptahagsmuni þeirra.
Lýsti yfir stuðningi við aðild Færeyja að EFTA
Lilja Alfreðsdóttir, utanríkisráðherra, lýsti yfir eindregnum stuðningi við aðild Færeyja að EFTA – fríverslunarsamtökum Evrópu – á fundi með Poul Michelsen, utanríkisráðherra Færeyja í dag. Færeyingar hafa formlega óskað eftir aðild að EFTA og var umsóknin til umræðu á fundi EFTA-ríkjanna í sumar. Þar lýsti Lilja afdráttarlaust yfir stuðningi íslenskra stjórnvalda við umsókn Færeyinga, sem er lögð fram með samþykki og stuðningi Dana. Aðildarríki EFTA nú eru fjögur; Sviss, Noregur, Lichtenstein og Ísland en aðild nýrra ríkja krefst samþykkis allra aðildarríkjanna.