fbpx
Laugardagur, júlí 13, 2024
HeimFréttirAtvinnulífÆvintýraleg saga öflugs hafnfirsks fyrirtækis

Ævintýraleg saga öflugs hafnfirsks fyrirtækis

Rafal fagnaði 40 ára afmæli sínu

Hafnfirska fyrirtækið Rafal fagnaði 40 ára afmæli sínum á dögunum en fyrir­tækið hefur verið að Hringhellu 9 síðan 2009 en var upphaflega stofnað í 25 m² bílskúr í Búðardal.

Í ræðu sinni á afmælisfagnaðinum sagði Kristjón Sigurðsson, þáverandi stjórn­arformaður Rafal ekki sjálfgefið að íslensk þjónustufyrirtæki nái svo háum aldri. Sagði hann stærstu hindrunina vera íslensku krónuna sem t.d. hafi tapað um 86% af verðgildi sínu gagnvart dönsku krónunni á þessum 40 árum. Sagði hann að sveiflur á gengi og því einnig verðlagi hafi verið slíkar að líkja megi við jarðskjálftahrinur á Reykjanesi, að ekki sé minnst á þau vaxtakjör sem flest fyrirtæki og heimili þurfa að búa við hér á landi.

Kristjón var upphafsmaður að stofnun fyrirtækisins sem hann stofnaði með Hilm­ari Óskarssyni 26. nóvember 1983. Var Kristjón þá starfsmaður Rarik en rekstrarstjóri Orkubús Vestfjarða hafði samband við hann og hvatt hann til að stofna fyrirtæki til að sinna nýrri aðveitu­stöð í Geiradal sem Kristjón hafði unnið við. Tók Rafval við því verki í ársbyrjun 1984.

Kristjón Sigurðsson í ræðustól

„Ekki voru allir starfsmenn Lands­virkjunar og Rarik ánægðir með þetta frumkvæði okkar Hilmars, með verktöku í orkugeiranum,“ sagði Kristjón.

Unnu þeir Kristjón og Hilmar við ýmiss rafvirkjastörf á vinnusvæðinu auk þess að þjónusta OV og LV. En árið 1988 var ný tækni að hefja innreið sína, Að­veitustöðin í Geiradal var sett í fjar­stýringu og Landsvirkjun sagði upp þjónustusamningnum við Rafal.

Um þessar mundir flutti Kristjón til Reykjavíkur og Rafal stofnaði útibú í Reykjavík. Í framhaldi keypti hann hlut Hilmars í Rafal sem var áfram starfsmaður Rafal í Búðardal. Til ársins 1993 var Rafal með töluverða starfsemi á báðum stöðum, unnin ýmis stórverk, m.a. tengi­virki og aðveitustöðvar. Árið 1992 keypti Hilmari starfsemi Rafal í Búðardal og hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki; Rafsel sem starfar þar um sveitir.

Árið 1993 var mikill samdráttur í öllum framkvæmdum og dökkt framundan. „Í þeirri stöðu var Rafal sett í skúffu og ég ráðinn til að reka rafmagnsverkstæði Rarik sem sá um allt viðhald og sam­setningar á spennum auk ýmiskonar þjón­­ustu við umdæmin á landsvísu. Á árunum 1997 og 98 vann ég þó á vegum Rafal við útskipti varnarliða í 220 kV tengi­virkjum Landsvirkjunar með og fyrir Verkfræðistofuna Afl & orku.“

Úr afmælishófinu

Var sagt upp í eigin fyrirtæki

Sumarið 1998 seldi Rarik rafmagns­verkstæðið. Kaupandinn var RST Net þar sem Kristjón átti 30% hlut og varð fram­kvæmdastjóri. „Við fengum strax mikil verkefni, m.a. stækkun Járnblendi­verk­smiðjunnar á Grundartanga og í framhaldi rafbúnað Sultartangavirkjunar. Svo fór þó eftir þras af minni hálfu að mér var sagt upp störfum hjá RST í júní, 1999,“ sagði Kristjón.

„Þá var mér efst í huga að hætta alfarið störfum í raforkugeiranum. En í júlí mánuði 1999, ákvað RST Net að segja sig frá hluta verkefna á Sultartanga, sem að endingu varð til þess að Rafal tók að sér þann verkhluta, – þ.e. uppsetning stjórn­búnaðar og tengingar rafvéla. Ég réði mannskap til verksins og við hófumst handa í ágúst mánuði 1999 og lukum því í febrúar árið 2000.

Í janúar árið 2000 flutti Rafal í 420 m² nýtt hús að Miðhrauni 22 sem fyrirtækið keypti m.a. fyrir væntanlegan hagnað af verkefninu á Sultartanga.

Mér þótti verst að finnast betra að fá 1,7 milljón en ekki neitt

„Við unnum þar fyrir erlent fyrirtæki og þegar kom að loka uppgjöri kom í ljós að það var gjaldþrota. Rafal fékk því einungis greiddar 1,7 milljónir IKR með VSK af 22 milljóna samþykktum reikn­ing­um. – Mér þótti verst að finnast betra að fá 1,7 milljón en ekki neitt.“
þá var ekki aftur snúið að sögn Krist­jóns. „Í lífinu er aðeins ein fær leið og hún er áfram“. Svo fór að Rafrún ehf eignaðist 50% hlut í Rafal í janúar 2002.
„Við bösluðum áfram í fimm ár en árið 2004 var Reykjanesvirkjun 2×50 MVA boðin út. Þór Þórsson í Framtaki hafði valið Rafal sem rafverktaka með þeirra boði sem reyndist lægst og var að lokum samþykkt þó verkkaupa litist ekkert á aðstöðu Rafal og getu til að klára þetta stóra verkefni. Sævar Baldursson var þá starfsmaður Rafal með alla sína reynslu og þekkingu frá Rarik og LV. Auk þess var Kjartan Steinbak frá VAO yfir verkefnisstjóri Rafal. Ég minnist þeirra félaga með söknuði.“

Ein bestu kaup sem ég hef gert

Eigendur Rafrúnar vildu ekki taka áhættu vegna Reykjanesvirkjunar og Kristjón keypti hlutinn aftur á þreföldu verði. „Ein bestu kaup sem ég hef gert,“ sagði Kristjón.
„Og við rúlluðum þessu verkefni upp með hópi rafvirkja sem Rafal ýmist réði eða fékk lánaða frá öðrum fyrirtækjum í bransanum.

Vinna Rafal við Reykjanesvirkjun árin 2005 og 2006 lagði fjárhagslegan grunn að þeirri stöðu sem fyrirtækið er í dag. Þökk sé Þór Þórssyni og Framtak ehf.“

Í beinu framhaldi komu 3 virkjanir; Hellisheiðarvirkjun 1, Orkuver 6 Svarts­engi og Hellisheiðarvirkjun 2. Uppsett afl samtals 150 MVA.

Spennasmíði og flutningur í Hafnarfjörð

Svo kom hrunið um haustið 2008. „Ég ákvað að líta ekki aftur, – en horfa fram á veginn og vinna úr þeim tækifærum sem sem yrðu á vegi okkar. Örlygur Jónasson sagði mér að innflutningur rafbúnaðar hefði stöðvast og Rarik vantaði dreifi­spenna. Við í Rafal ákváðum að hefja smíði á 3ja fasa dreifispennum úr aflögð­um einfasa búnaði. Til þess þurfti stærra hús og lóðarrými. Vegna þess keypti Rafal húseignina hér á Hringhellu 9 í febrúar 2009 og flutti inn skömmu síðar. Þökk sé Hafnarfjarðarbæ og Lúðvík Geirssyni þáverandi bæjarstjóra.“

Húsnæði Rafals að Hringhellu 9

Frá 2009 hefur Rafal smíðað um 2000 dreifispenna, 35 dreifistöðvahús, rafbún­að fyrir 15 gufuaflsveitur til uppsetningar í Kenýja og unnið við frágang þeirra fyrir Green Energy Iceland Stundað stofnlínu­vinnu á Grænlandi, Noregi og hjá LN. Annast uppsetningu virkjana við Búðar­háls og Búrfell 2 samtals 180 MVA og stækkun Reykjanesvirkjunar um 30 MVA. Sinnt rekstrar- og neyðarþjónustu hjá Veitum, Rarik, LN, LV, OV, og Elkem. Sett upp nokkur gagnaver og unnið við framleiðslu hjá Marel. Lagt og tengt ljósleiðara vítt og breytt og annast almenna rafverktöku auk þess að vera á fullri ferð í 4. iðnbyltingunni.

Í 125 manna fyrirtæki

Árið 2013 tók Valdimar við stöðu framkvæmdastjóra sem Kristjón hafði haft á höndum frá upphafi eða í 30 ár. „Frá þeim tíma hefur Rafal vaxið úr því að vera þokkalegt ,,bílskúrsfyrirtæki“ í að vera með 125 starfsmenn sem í dag eru í fremstu röð meðal jafningja á Íslandi varðandi fagmennsku, þekkingu og nýsköpun í rafiðnaði. Meðalaldur starfs­manna er um 40 ár svo þeir hafa fæstir verið komnir á teikniborðið fyrir 40 árum.“
Rafal stofnaði svo dótturfyrirtækið Lýsir ehf. til að annast innkaup og sölu á vörum til ljósleiðaralagna. Sama ár, 2017, var húsið hér stækkað um 180 m². Árið eftir var ráðist í byggingu hússins á Hring­hellu 9a og Rafal keypti Verkfræði­stofuna Afl & orku sem flutti starfsemi sína í nýja húsið.

Frá árinu 2005 hafa að jafnaði 4-5 raf- og /eða rafveituvirkjar lokið náms­samn­ingi hjá Rafal árlega, og í lok árs 2022 höfðu 80 nemar fyrirtækisins, lokið sveins­prófi.

Tímabært að endurnýja rafbúnað virkjana

Kristjón sagði það mega furðu gegna hversu erfiðlega gengur að endurnýja og stækka raforkukerfi Íslands. „Mér finnst orðið löngu tímabært að hefjast handa af fullum krafti við endurnýjum á 50 ára rafbúnaði virkjana og byggðalínu og halda áfram að nýta aðdráttarafl jarðar með virkjun fallvatna landsins. Hafið það hugfast að af gjaldeyrisskapandi starf­semi landsmanna er aðeins orkugeirinn að mestu leyti í eigu þjóðarinnar,“ segir Kristjón.

Litið til baka

„Þegar litið er til baka um 40 ár vakna spurningar eins og; hvað hefur verið erfiðasta verkefnið varðandi reksturinn? Verkefnaöflun og viðskiptamenn? Birgjar og efnisútvegun? Starfsmannahald? Skattbyrði? Nei, svarið er nei.

Það sem er erfiðast varðandi rekstur fyrirtækis eins og Rafal er óstöðugt verð­lag og okurvextir sem valda flest öllum smærri fyrirtækjum og heimilum landsins mestum vanda, of oft verulegum erfið­leikum og reksturinn verður þar af leiðandi óbærilegur á stundum og á þeim stundum eru bankarnir hvergi.

Og svo birtir upp og allt gengur eins og smurt. Þannig er hjá Rafal í dag,“ sagði Kristjón á 40 ára afmælisfagnaði Rafal.

Feðgarnir Kristjón Sigurðsson og Valdimar forstjóri ásamt Sigurjónu Valdimars­dóttur, eiginkonu Kristjóns og Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir, stjórnarformaður og eiginkona Valdimars.

„Í dag, á fjörutíu ára afmælinu er Rafal eitt öflugasta rafiðnaðarfyrirtæki á Ís­landi, hvað varðar breidd í þjónustu, þekkingu og nýsköpun og með skýra fram­tíðarsýn að leiðarljósi.“

Ingibjörg Lilja Þórmundsdóttir, stjórnarformaður Rafals
Kristján Kristjánsson, forstjóri Rafals

 

Greinin birtist fyrst í bæjarblaðinu Fjarðarfréttum, 2. tbl. 2024

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2