fbpx
Þriðjudagur, júní 25, 2024
HeimFréttirAðeins þrír bæjarfulltrúar greiddu atkvæði með samþykkt á svari til ráðuneytis

Aðeins þrír bæjarfulltrúar greiddu atkvæði með samþykkt á svari til ráðuneytis

Sex bæjarfulltrúar sátu hjá, þar af tveir fulltrúar Sjálfstæðisflokks

Bæjarstórn Hafnarfjarðar tók til afgreiðslu, á fundi sínum í gær, miðvikudag, drög að svörum við erindi samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til Hafnarfjarðarkaupstaðar, dags. 20. apríl sl. vegna stjórnsýsluákvarðana Hafnarfjarðarbæjar og þátt tveggja fv. bæjarfulltrúa Bjartrar framtíðar í þeim ákvörðunum.

Forsetanefnd hafði tekið að sér að vinna svar til ráðuneytis og fól stjórnsýslunni að vinna drög að því. Í nefndinni sátu Margrét Gauja Magnúsdóttir 1. varaforseti, Kristinn Andersen, 2. varaforseti og Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir áheyrnarfulltrúi.

Svarbréfið

Efni: Kjörgengi og forföll bæjarfulltrúa og framkvæmd fundar bæjarstjórnar Hafnarfjarðarkaupstaðar

Vísað er í bréf samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins til Hafnarfjarðarkaupstaðar, dags. 20. apríl sl. Í bréfinu er vísað í erindi frá lögmanni Borghildar Sölveyjar Sturludóttur og Péturs Óskarssonar, varamanna í bæjarstjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar, þar sem óskað var eftir því að ráðuneytið tæki til umfjöllunar nánar tilgreind atriði er varða meðal annars kjörgengi og forföll bæjarfulltrúa og framkvæmd fundar bæjarstjórnar sem haldinn var þann 11. apríl sl. Í bréfinu óskar ráðuneytið eftir umsögn bæjarstjórnar um ofangreind erindi en einnig er í bréfinu sérstaklega óskað eftir upplýsingum um nánar tiltekin atriði sem í bréfi ráðuneytisins eru sett fram í þremur tölusettum liðum.

I. Umsögn bæjarstjórnar Hafnarfjarðar um erindi lögmanns Borghildar og Péturs til ráðuneytisins dags. 11. og 12. apríl sl.

Það er rétt sem fram kemur í erindi lögmannsins, dags. 11. apríl sl., að á fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 14. mars sl. var tekin fyrir tilkynning frá bæjarfulltrúa Guðlaugu Svölu Steinunnar Kristjánsdóttur þar sem hún tilkynnti um fjarveru frá störfum um óákveðinn tíma vegna veikinda (fskj. 1). Á fundinum var eftirfarandi bókað, sbr. fskj. 2.

„Varamaður Guðlaugar, Borghildur Sölvey Sturludóttir, tekur sæti í bæjarstjórn frá og með deginum í dag og þann tíma sem forföll standa yfir, sbr. 3. mgr. 31. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 og telst aðalmaður í bæjarstjórn þann tíma.“

Um lausn bæjarfulltrúa frá störfum er fjallað í 30. gr. sveitastjórnarlaga nr. 138/2011 en í 2. mgr. greinarinnar kemur fram að telji sveitarstjórnarmaður sig ekki geta gegnt skyldum í sveitarstjórn án óhæfilegs álags, svo sem vegna veikinda eða annarrar vinnu, geti sveitarstjórn létt af honum störfum eða veitt honum lausn úr sveitarstjórn um tiltekinn fyrir fram ákveðinn tíma eða til loka kjörtímabils.

Skilyrði fyrir því að ofangreindu ákvæði verði beitt, samkvæmt orðalagi ákvæðisins, eru meðal annars þau að bæjarfulltrúi þarf með skýrum hætti að óska slíkrar lausnar, bæjarstjórn þarf að taka afstöðu til hennar með formlegum hætti og lausnin þarf að vera afmörkuð annaðhvort við tiltekinn fyrirfram ákveðinn tíma eða til loka kjörtímabils.

Umrædd skilyrði voru ekki uppfyllt þegar Guðlaug Svala tilkynnti bæjarstjórn um ótímabundin forföll á fundi bæjarstjórnar þann 14. mars sl. Verður því að telja að bæjarstjórn hafi borið að taka fyrir, á næsta fundi sínum, með formlegum hætti beiðni bæjarfulltrúans um lausn frá störfum skv. 2. mgr. 30. gr. sveitastjórnarlaga. Til þess kom hins vegar ekki þar sem Guðlaug Svala mætti á fund bæjarstjórnar þann 11. apríl sl. Í erindi lögmannsins er vísað sérstaklega til 2. og 3. mgr. 31. gr. sveitastjórnarlaga enda vísað til síðarnefnda ákvæðisins í bókun bæjarstjórnar, sbr. hér að framan. Í þessu sambandi þarf að hafa í huga að í 31. gr. er fjallað um innköllun varamanna þegar aðalmaður í sveitarstjórn forfallast. Verður því að telja að lögleg forföll þurfi að liggja fyrir áður en ákvörðun um innköllun varamanna taki gildi.

Varðandi þann hluta af erindi lögmannsins sem snýr að kjörgengi bæjarfulltrúa þá var mál nr. 1804122 – Bæjarstjórn, bæjarfulltrúar, kjörgengi tekið til umræðu á fundi forsetanefndar Hafnarfjarðarkaupstaðar þann 9. apríl sl. Engin bókun var gerð (fskj. 3).

Að öðru leyti hefur mál vegna kjörgengis bæjarfulltrúa ekki verið tekið fyrir með formlegum hætti á vegum bæjarstjórnar Hafnarfjarðar.

Hvað varðar það sem fram kemur í erindi lögmannsins til ráðuneytisins frá 12. apríl sl. skal tekið fram að verklag við breytingar á fulltrúum í skipulags- og byggingarráði og hafnarstjónar á fundi bæjarstjórnar þann 11. apríl sl. var ekki með öðrum hætti en venja hefur verið fyrir þegar slíkar breytingar hafa verið samþykktar í bæjarstjórn. Þannig hefur ekki verið getið um slíkar breytingar í auglýstri dagskrá funda að öðru leyti en að málið Ráð og nefndir hefur verið í dagskrá fundarins, án þess að nöfn þeirra fulltrúa sem um ræðir hverju sinni séu þar sérstaklega tilgreind.

Í erindi lögmannsins er því einnig haldið fram að forseti bæjarstjórnar hafi brotið gegn meginreglu 16. gr. sveitastjórnarlaga um opna fundi bæjarstjórnar þegar hún tók ákvörðun um að gert yrði fundarhlé á umræddum fundi. Í þessu sambandi skal tekið fram að forseta er heimilt að gera hlé á fundum bæjarstjórnar við tilteknar aðstæður, sbr. b. lið I. liðar 15. gr. samþykkta um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar. Eftir fundarhlé var á ný kveikt á streymi af fundinum í gegnum vefinn og var fundurinn opinn öllum eins og lög og reglur gera ráð fyrir. Það er rétt sem haldið er fram í erindi lögmannsins að í fundarhléi óskaði forseti eftir því að salurinn yrði rýmdur af gestum á meðan á hléinu stóð.

Að lokum er í erindi lögmannsins frá 12. apríl sl. því haldið fram að afgreiðsla á tillögu um breytingum á fulltrúum í skipulags- og byggingarráði og hafnarstjórn hafi verið í andstöðu við ákvæði sveitarstjórnarlaga. Í þessu sambandi skal tekið fram að samkvæmt 2. mgr. 49. gr. sveitastjórnarlaga getursveitarstjórn hvenær sem er á kjörtímabili ákveðið að skipta um fulltrúa í nefndum, ráðum og stjórnum sem hún kýs eða skipar ef ekki er um það ágreiningur innan sveitarstjórnar. Á fundinum voru tillögur um breytingar á fulltrúum í skipulags- og byggingarráði og hafnarstjórn samþykktar með 7 atkvæðum og 4 bæjarfulltrúar sátu hjá við atkvæðagreiðsluna og bókuðu eftirfarandi: „Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna sitja hjá og óska bókað. Við treystum okkur ekki til að taka afstöðu til tillögunnar eins og hún er lögð fram.“

Að öðru leyti um erindi lögmannsins vísast til svara bæjarstjórnar við beiðni ráðuneytisins um upplýsingar um nánar tilgreind atriði, sjá kafla II hér að aftan.

II. Svör bæjarstjórnar við beiðni ráðuneytisins um upplýsingar um tiltekin atriði

Eftirfarandi svör eru sett fram í sömu röð og spurningar eru bornar upp í bréfi ráðuneytisins.

1. Guðlaug tilkynnti bæjarstjóra með tölvupósti 13. mars 2018 kl. 15:00 fjarveru sína frá störfum um óákveðinn tíma vegna veikinda. Rétt fyrir upphaf fundarins staðfesti bæjarstjóri aðspurður við 1. varaforseta munnlega að Guðlaug hefði sent læknisvottorð.

Tölvupóstur Guðlaugar til bæjarstjóra var ekki lagður fram í bæjarstjórn en tillaga að afgreiðslu var lesin upp á bæjarstjórnarfundi þann 14. mars 2018 um ótímabundin forföll hennar.

Þann 9. apríl 2018 ræða bæjarstjóri og sviðsstjóri stjórnsýslusviðs við Guðlaugu og upplýsa hana um að hún þurfi að óska eftir lausn úr bæjarstjórn til fyrirfram ákveðins tíma svo bæjarstjórn geti fjallað um beiðnina og afgreitt. Guðlaug tilkynnir þá bæjarstjóra og sviðsstjóra að hún sé komin aftur til starfa og muni sitja bæjarráðsfund þann dag sem hefjist kl. 17:00 sem og næsta bæjarstjórnarfund þann 11. apríl n.k. Með hliðsjón af því var ekki aðhafst frekar í málinu. Tilkynning Guðlaugar var gerð munnlega og því ekki til afrit af henni.

2. Fulltrúar í forsetanefnd óskuðu eftir því að á fundi forsetanefndar bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 9. apríl sl. yrði kjörgengi bæjarfulltrúa tekið til umræðu og var mál nr. 1804122 – Bæjarstjórn, bæjarfulltrúar, kjörgengi í kjölfarið sett á dagskrá fundarins.

Málið var tekið til umræðu á fundi nefndarinnar en engin bókun var gerð. Að öðru leyti hefur meintur missir Einars Birkis Einarssonar á kjörgengi í bæjarstjórn Hafnarfjarðar hvorki komið til úrskurðar né annarrar umfjöllunar í bæjarstjórn eða annars staðar í stjórnkerfi sveitarfélagsins.

3. Umrædd spurning ráðuneytisins varðar málefni og samskipti þeirra Guðlaugar Svölu og Einars Birkis Einarssonar við varabæjarfulltrúa Bjartrar framtíðar þau Borghildar Sölveyju Sturludóttur og Péturs Óskarssonar. Í því ljósi var við gerð þessa svars óskað eftir umsögn frá Guðlaugu Svölu um spurningu ráðuneytisins og eðli málsins samkvæmt er skriflegt svar hennar sett hér fram sem svar við spurningu ráðuneytisins. Svar Guðlaugar Svölu, dags. 7. Maí sl. er svohljóðandi:

„Aðdraganda mannabreytinga í skipulags- og byggingaráði og hafnarstjórn þann 11. apríl 2018 má rekja til langvarandi og djúpstæðra samstarfsörðugleika og trúnaðarbrests innan fulltrúahóps BF og þar með meirihluta bæjarstjórnar.

Um langa hríð höfðu samskipti umræddra fulltrúa við oddvita verið afar stopul og stirð. Þess sér meðal annars stað í bókun fulltrúa BF á fundi skipulags- og byggingaráðs þann 6. mars, þar sem lýst er óánægju með störf bæjarráðs og embættismanna bæjarins í máli er varðar hús við Austurgötu sem skemmst hafði af völdum myglu og óværu. Þessa bókun las oddviti um í blöðum en var ekki upplýst um hana fyrirfram.

Oddviti hafði einnig fengið ítrekuð erindi frá bæjarbúum þess efnis að fulltrúar BF í skipulags- og bygginganefnd neituðu að ræða við þá um erindi fyrir ráðinu, á þeim grunni að slík samtöl samræmdist ekki stefnu flokksins í bænum. Engin slík stefna liggur fyrir og tók oddviti því við þessum samskiptum þegar eftir var leitað.

Hér hafa verið nefnd nokkur áþreifanleg dæmi um ágreining um vinnubrögð og erfið samskipti, sem urðu loks tilefni til útskiptingar í ráði og hafnarstjórn til að freista þess að skapa vinnufrið og endurheimta skilvirkni.“

Er þess vænst að ofangreindar upplýsingar ásamt fylgiskjölum varpi skýrara ljósi á málið.

Virðingarfyllst,

f.h. bæjarstjórnar Hafnarfjarðar

Fylgiskjöl:

  1. Erindi Guðlaugar Svölu Steinunnar Kristjánsdóttur, dags. 13. mars 2018, ásamt afriti af læknisvottorði.
  2. Fundargerð af fundi bæjarstjórnar Hafnarfjarðar þann 14. mars 2018.
  3. Fundargerð af fundi forsetanefndar þann 9. apríl 2018.
  4. Fundargerð af fundi bæjarstjórnar þann 11. apríl 2018.
  5. Upptökur af fundum bæjarstjórnar Hafnarfjarðar má nálgast á slóðinni: https://livestream.com/accounts/5108236/events/2361147

Gunnar Axel sagði merðferð málsins einkennast af meðvirkni

Gunnar Axel Axelsson fjallaði um stjórnsýsluna í tengslum við þetta mál og gagnrýndi málsmeðferðina.

Hægt er að hlusta á umræðuna um þetta mál á bæjarstjórnarfundinum hér. Umræðan hefst 14:40 með ræðu Gunnars Axels Axelssonar.

Bæjarstjóri sagði málflutning Gunnars skáldskap og vitnaði í biskup Íslands

Brást bæjarstjóri svo við erindi Gunnars Axel að hann í raun taldi erindi hans skáldskap og líkti því við hvernig biskup Íslands talaði um pólitík innan Þjóðkirkjunnar og sagðist ekki hafa annað um málið að segja og svaraði því engum athugasemdum Gunnars efnislega!

Hlusta má á all sérstakt svar bæjarstjóra hér. Hefst á 49:50

Taldi ekki hefð í bæjarstjórn að skipta úr fólki með þessum hætti

Gunnar Axel Axelsson, oddviti Samfylkingarinnar gerði alvarlegar athugsemdir við drögin og vísaði m.a. annars til greinar um málið í Fjarðarfréttum og fyrisagnarinnar Hver gætir lýðræðisins í Hafnarfirði? og lagði fram ítarlega bókun:

„Undirritaður sat ekki fund bæjarstjórnar þann 14. mars sl. þar sem bæjarstjórn afgreiddi ósk bæjarfulltrúa Guðlaugar Svölu Steinunnar Kristjánsdóttur um ótímabundið leyfi frá störfum og tekur því ekki afstöðu til spurninga ráðuneytisins hvað varðar framkvæmd þeirrar afgreiðslu eða undirbúnings hennar.

Varðandi þann hluta sem snýr að kjörgengi annars bæjarfulltrúa, hefur umfjöllun um kjörgengi eða könnun þess aldrei verið tekin fyrir á fundum sem undirritaður hefur setið. Ekki liggur fyrir í gögnum málsins hvort formlegar ábendingar eða upplýsingar hafi borist bæjaryfirvöldum sem gefa tilefni til könnunar kjörgengis eins eða fleiri bæjarfulltrúa, né heldur hvort og þá hvernig slíkar ábendingar hafi verið meðhöndlaðar af hálfu bæjarstjórnar, undirnefnda hennar eða framkvæmdastjóra sveitarfélagsins. Tekur undirritaður því heldur ekki afstöðu til svara bæjarstjórnar til ráðuneytisins er varðar þetta tiltekna atriði.

Hvað varðar þriðja lið umsagnarinnar fellst undirritaður ekki á þá skýringu að afgreiðsla bæjarstjórnar þann 11. apríl sl. hafi verið venju samkvæmt. Sú lýsing sem sett er fram í framlagði umsögn vísar til breytinga á skipan í ráð og nefndir sem reglulega eru gerðar og eiga sér án undartekninga þær skýringar að kjörnir fulltrúar hafa annaðhvort misst kjörgengi vegna flutnings úr sveitarfélaginu eða hafa af öðrum málefnalegum ástæðum óskað sjálfir lausnar frá störfum sínum. Um slíkar afgreiðslur hefur ríkt sú venja að ekki þurfi að tilgreina nákvæmlega í fundarboði í hverju breytingarnar felist og afgreiðsla þeirra hefur undantekningalaust farið fram án ágreinings. Breytingarnar sem gerðar voru á nefndarskipan þann 11. apríl sl. voru augljóslega ekki þessa eðlis.

Þá tel ég mikilvægt að árétta að fulltrúar minnihlutans fengu engar leiðbeiningar fyrir bæjarstjórnarfundinn þann 11.apríl sl. um hvernig rétt væri að standa að undirbúningi og framkvæmd svo óvenjulegrar afgreiðslu sem varla á sér mjög mörg fordæmi í framkvæmd núgildandi sveitarstjórnarlaga. Þvert á móti var oddvitum minnihlutaflokkana tilkynnt símleiðis fyrir fundinn að mikilvægt væri af praktískum ástæðum að ekki yrði gerður ágreiningur um afgreiðslu þessa liðar, meðal annars vegna þess að þá þyrfti að kjósa að nýju í viðkomandi ráð og nefndir. Hvorki forseti né embættismenn upplýstu fulltrúa minnihlutans um önnur lagaleg atriði sem varða slíkar afgreiðslur og hefðu í ljósi óvæntrar framvindu fundarins án efa komið sér vel.

Varðandi þann hluta sem snýr að gerð hlés á umræddum fundi getur undirritaður alls ekki tekið undir þá túlkun á samþykktum sveitarfélagsins sem sett er fram í svari bæjarstjórnar. Er þar vísað til b. liðar I. liðar í 15. gr. samþykkta um stjórn Hafnarfjarðarkaupstaðar og fundarsköp bæjarstjórnar.Tilvísuð heimild forseta til að gera hlé á fundi bæjarstjórnar án afgreiðslu bæjarstjórnar er bundinn við mjög skýrt afmarkaðar aðstæður, þ.e. ef annaðhvort bæjarfulltrúi hlýðnast ekki úrskurði forseta eða slík óregla kemur upp á fundinum að annað sé ekki hægt en að stöðva fundinn. Fyrirliggjandi er að engar slíkar aðstæður voru uppi í því tilviki sem hér er spurt um. Þá er ástæða til að benda á að forseti var sjálfur tillöguflytjandi og hefði því með réttu átt að fela varaforseta fundarstjórn undir þessum tiltekna dagskrárlið.

Undirritaður getur því ekki annað en tekið undir ábendingu varabæjarfulltrúanna þess efnis að með því að gera hlé á fundinum hafi almenningur í reynd verið sviptur rétti til að hlýða á efnislega umræðu, enda fór efnisleg umræða um tillöguna, að undanskilinni upphafsræðu undirritaðs, fram í fundarhléinu en ekki á opnum fundi bæjarstjórnar. Þá liggur sömuleiðis fyrir að eina gesti þessa opna bæjarstjórnarfundar var vísað á dyr áður en efnisleg umræða hélt áfram eftir að ræðu undirritaðs lauk.

Að lokum er rétt að árétta að á fundi bæjarstjórnar þann 11. apríl ríkti allt annað en samstaða um þá ákvörðun að víkja tveimur rétt kjörnum varabæjarfulltrúum úr skipulags- og byggingaráði og úr hafnarstjórn. Eftir ræðu undirritaðs og um klukkustundarlangt fundarhlé hófst opinn fundur að nýju og tilkynnti forseti að atkvæðagreiðsla færi fram um upphaflega tillögu. Lögðu fulltrúar minnihlutans þá fram eftirfarandi bókun: “Fulltrúar Samfylkingar og Vinstri grænna sitja hjá og óska bókað. Við treystum okkur ekki til að taka afstöðu til tillögunnar eins og hún er lögð fram.”

 

Svarbréfið samþykkt með þremur atkvæðum

Var bréfið borið upp til samþykktar en svo bar við að aðeins þrír bæjarfulltrúar greiddu atkvæði með tillögunni, bæjarfulltrúarnir Kristinn Andersen, Ólafur Ingi Tómasson og Rósa Guðbjartsdóttir.

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins þær Helga Ingólfsdóttir og Unnur Lára Bryde sátu hjá við afgreiðslu málsins eins og fulltrúar minnihlutans, Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir, Adda María Jóhannsdóttir, Margrét Gauja Magnúsdóttir og Gunnar Axelsson.

Bæjarfulltrúarnir Einar Birkir Einarsson og Guðlaug Svala Kristjánsdóttir véku af fundi undir þessum dagskrárlið.

 

Adda María Jóhannsdóttir, Elva Dögg Ásudóttir Kristinsdóttir, Kristinn Andersen, Ólafur Ingi Tómasson og Margrét Gauja Magnúsdóttir gerðu öll grein fyrir atkvæði sínu. Í máli Kristins Andersen kom fram að hann teldi bréfið lýsa þeim ferli sem málið hafa verið í og í ljósi þess að hann væri sá eini úr forsetanefnd

 

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2