5% hærri útsvarstekjur en laun 2,4% hærri en áætlað var

Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar lagður fram í dag

Flensborgarhöfn

Ársreikningur Hafnarfjarðarbæjar var lagður fram í bæjarráði í morgun. Er hann vel í samræmi við fjárhagsáætlun ólíkt því sem var á síðasta ári þegar afkoman var mun verri en áætlað var.

Útsvarstekjur voru 670 milljónum kr. hærri en áætlað en fasteignaskattar og lóðarleiga á pari við áætlun. Framlag Jöfnunarsjóðs var 126 millj. kr. hærra en áætlað var og aðrar tekjur 109 millj. kr. hærri en áætlun með viðaukum gerði ráð fyrir. Þá voru fjármagnsliðir 732 milljónum krónum lægri en áætlun gerði ráð fyrir vegna lægri verðbóta og niðurgreiðslu skulda.

Veltufé frá rekstri styrktist verulega og nam 3.634 milljónum króna eða 15,7% af heildartekjum.

Launakostnaður var rúm 75% af útsvarstekjum eða 10,6 milljarðar kr., um 245 millj. kr. hærri en áætlað var. Hins vegar varð hækkun á lífeyrisskuldbindingum tvöfalt meiri en áætlað var en gert hafði verið ráð fyrir 900 millj. kr. hækkun en hún varð 1.867 millj. kr.

Skuldaviðmiðið 148%

Heildarskuldir Hafnarfjarðarbæjar voru í árslok tæpir 23 milljarðar kr. og höfðu lækkað um 1.026 millj. kr. þrátt fyrir áðurnefnda hækkun lífeyrisskuldbindinga. Greiddur var 2,1 milljarður kr. í afborganir sem er um 870 milljón kr. umfram ákvæði í lánasamningum. Engin ný lán voru tekin á árinu. Fjárhagsstaða Hafnarfjarðarbæjar hefur því styrkst verulega á árinu og er skuldaviðmið í árslok 2016 komið í 148% og þar með undir 150% skuldaviðmið samkvæmt reglugerð um fjárhagsleg viðmið og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga.

Fjárfestingar á árinu 2016 námu 1.358 milljónum króna en áætlun gerði ráð fyrir 1.895 milljónum króna. Meðal helstu framkvæmda var verklok á byggingu nýs leikskóla að Bjarkavöllum fyrir um 353 milljónir króna. Bygging nýs skóla í Skarðshlíð og bygging hjúkrunarheimilis sem áætlað var að hæfust á árinu 2016 munu hefjast árið 2017. Kaupverð fasteigna nam 215 milljónum króna og framkvæmdir við gatnagerð nam 393 milljónum króna. Tekjur vegna gatnagerðargjalda og byggingaréttar námu 1.339 milljónum króna en gatnagerðargjöld eru færð til lækkunar á framkvæmdakostnaði þar til verki lýkur.

Jákvæð rekstrarniðurstaða

Hagnaður var af rekstri A-hluta um 26,7 millj. kr. en Í rekstrarreikning er færðar 215 milljónir króna undir óreglulega liði en hún er vegna greiðslu á lífeyrisskuldbindingu vegna fyrrum starfsmanna  Sparisjóðs Hafnarfjarðar/Byrs sem áður var talið að myndi innheimtast hjá þrotabúi Byrs. Er þetta mikill viðsnúningur frá fyrra ári er tap var á rekstri upp á tæpan 1,1 milljarð kr. Áætlun með viðaukum gerðu hins vegar ráð fyrir 15 millj. kr. rekstrarafgangi.

Hagnaður af A- og B-hluta er 538,5 millj. kr. en áætlun hafði gert ráð fyrir 361,1 millj. kr. hagnaði.

Skoða má ársreikninginn hér

Ummæli

Ummæli

Skilja eftir athugarsemd

Please enter your comment!
Please enter your name here