fbpx
Laugardagur, maí 18, 2024
HeimFréttir1.000 til 1.200 óleyfisíbúðir á höfuðborgarsvæðinu

1.000 til 1.200 óleyfisíbúðir á höfuðborgarsvæðinu

Áætlað er að um 5.000-7.000 einstaklingar búi nú í 1500-2000 íbúðir óleyfisíbúðum en það er húsnæði sem skiplagt er undir atvinnustarfsemi en nýtt til íbúðar fyrir einstaklinga.

Af þeim eru 1.000-1.200 íbúðir á höfuðborgarsvæðinu en ekki kemur fram í skýrslunni nánari skipting á sveitarfélög.

Þetta kemur fram í nýrri samantekt vinnuhóps sem skipaður var til að safna upplýsingum um fjölda óskráðra íbúða og leiðir til þess að fá eigendur óskráðra íbúða til að skrá þær opinberlega. Þessi skýrsla er hluti af yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við gerð Lífskjarasamningana í apríl 2019 um umbætur í húsnæðismálum.

Ástæður þess að fólk býr í óleyfisíbúðum geta verið margþættar en skortur á leiguhúsnæði og há leiga er líkast til veigamesta skýringin. Þá eru dæmi um að starfsmannaleigur og atvinnurekendur komi starfsmönnum sínum fyrir í óleyfisbúsetu sem hafa jafnvel ekki raunverulegt val um búsetu. Þá spilar jafnframt inn í að hluti erlends verkafólks sem dvelst tímabundið á landinu vegna vinnu kýs hreinlega að búa tímabundið í eins ódýru húsnæði og mögulegt er þar sem ekki eru gerðar sambærilegar kröfur til húsnæðisins af hálfu viðkomandi og ef um framtíðarbúsetu væri að ræða.

Í skýrslunni segir að vegna ákvæða laga um skráningu lögheimilis og aðseturs er ekki heimilt að skrá búsetu í atvinnuhúsnæði nema í undantekningartilvikum. Þar af leiðandi liggja ekki fyrir upplýsingar um búsetu þeirra sem búa í óleyfisíbúðum. Sú óvissa skapar hættu þegar vá steðjar að, líkt og eldsvoði eða náttúruhamfarir, og gerir viðbragðsaðilum erfitt fyrir í björgunarstörfum.

Sú tillaga er lögð fram í skýrslunni að horfa til þess að heimila tímabundið aðsetursskráningar í skilgreindu atvinnuhúsnæði sem mætir ákveðnum kröfum. Með því er einstaklingur með skráð lögheimili ótilgreint í viðkomandi sveitarfélagi en aðsetur í viðkomandi atvinnuhúsnæði. Þá er hægt að halda betur utan um þá aðila sem búa í atvinnuhúsnæði, en slíkt er mikið öryggisatriði hvað t.d. varðar viðbragðsaðila.

Fjöldaskráning lögheimilis í íbúðarhúsnæði verði ekki heimil

Þá leggur vinnuhópurinn til að endurskoðaðar verði heimildir til fjöldaskráninga lögheimilis í íbúðarhúsnæði með það í huga að setja takmörk á slíkar skráningar. Tilgangur þess væri að koma í veg fyrir að margir séu skráðir í sömu íbúð án þess að búa þar í raun og fá sem réttasta mynd af raunverulegri búsetu, m.a. fyrir viðbragðsaðila.

Þegar bruninn varð að Bræðraborgarstíg 1 í Reykjavík í júní 2020 voru 73 einstaklingar skráðir með lögheimili í eigninni.

Skráningarskylda leigusamninga verði lögfest

Einnig er lagt til að lögfest verði skráningarskylda leigusamninga í húsnæðisgrunn Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar. Slík skráning yrði til þess að fá betri yfirsýn yfir leigumarkaðinn í heild sinni, en í dag er slík skylda ekki til staðar. Óaðgengilegar og óáreiðanlegar upplýsingar um leigumarkaðinn gera það að verkum að erfiðlega gengur að mæta þeim áskorunum sem þar er að finna með markvissum hætti. Þar með talið áskorunum líkt og hvort leiguhúsnæði uppfylli kröfur um brunavarnir, hvort eðli leigunnar er þannig að gera ætti auknar kröfur um brunavarnir, hversu margir eru búsettir í leiguíbúð o.s.frv.

Stórt og mikilvægt skref yrði stigið í rétta átt til að bæta réttarvernd og öryggi leigjenda með skráningarskyldu leigusamninga og er fyrirhugað að félags- og barnamálaráðherra leggi fram frumvarp þar um á yfirstandandi þingi. Þá hefur jafnframt verið nefnt að gera auknar kröfur á leigusala um að skilgreina í fylgiskjali með leigusamningi brunaútganga og aðrar brunavarnir í leiguíbúðinni.

Vinnuhópurinn var skipaður af Jóni Viðari Matthíassyni slökkviliðsstjóra, fulltrúa Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, Birtu Austmann Bjarnadóttur deildarstjóra Þjónustudeildar, fulltrúa Þjóðskrár Íslands, Önnu Gunnhildi Ólafsdóttur sviðsstjóra félags- og þróunarsviðs Eflingar, fulltrúa Alþýðusambands Íslands og Önnu Guðmundu Ingvarsdóttur aðstoðarforstjóra, fulltrúa HMS sem jafnframt stýrði vinnu hópsins. Verkefnastjóri var Kristinn Tryggvi Gunnarsson, breytingastjóri HMS.

Skýrsla vinnuhópsins

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2