fbpx
Föstudagur, apríl 19, 2024
HeimFréttirPólitíkUngt fólk og fyrstu íbúðarkaup

Ungt fólk og fyrstu íbúðarkaup

Elín Hirst skrifar:

Við Íslendingar viljum flestir eignast þak yfir höfuðið. Það er skynsamlegur búrekstur og virðist sem betur fer hluti af þjóðarsálinni. Þeir sem það kjósa geta auðvitað leigt húsnæði en það breytir ekki því að efst á lista hjá flestu ungu fólki er að eignast sína eigin íbúð. Það tryggir öryggi og festu fyrir fjölskylduna. Ýmislegt hefur unnið gegn ungu fólki á síðustu árum í þessum efnum. Við foreldrar þekkjum þennan gang og viljum veg barna okkar sem bestan. Húsnæðis­mál ungs fólks er því oft fjöl­skyldumál, eins og vera ber. Eftir hrun hefur greiðslumatið verið mun strangara en áður, byggingarreglugerðir eru einnig íþyngjandi og hamla framboði á fjölbreyttara húsnæði. Lóðir eru seldar dýru verði, sem kemur beint fram í dýrum íbúðum, og markaðsáhrif í tengslum við ferðamannastrauminn koma líka fram í hærra verði á íbúðum, bæði við leigu og kaup, sérstaklega í miðbæjarkjörnunum hér á suðvestur­horninu. Þetta og fleira hefur gert ungu fólki erfiðara fyrir að eignast sína fyrstu íbúð.

Núverandi ríkisstjórn steig mjög gott skref í tengslum við skuldaleiðréttinguna og samfara henni var opnuð leið til að nota séreignarsparnað skattfrjálst til að greiða niður höfuðstól fasteignalána. Með nýju frumvarpi sem nú liggur fyrir Alþingi er gengið enn lengra í að koma til móts við ungt fólk og auðvelda því að safna fyrir útborgun í fasteign. Samkvæmt hinni nýju leið getur hver og einn nýtt séreignarsparnaðinn skatt­frjálst í 10 ár og safnað sér skattfrjálst allt að 5 millj­ónum fyrir einstakling og 10 milljónum fyrir par. Leiðin er ígildi umtalsverðrar skatta­lækk­unar, eða launahækkunar, eftir því hvernig á er litið.

Séreignarsparnaðarleiðin stendur öllum til boða sem greiða eða munu greiða í séreignarsparnað og hafa ekki átt íbúð áður. Mikilvægt er að muna að þeir sem keyptu íbúð eftir að séreignarsparnaðarleiðin var lögfest (í eldra kerfinu) færast yfir í þessa leið og njóta einnig hagræðisins. Stuðningur samkvæmt eldri leið er framlengdur um tvö ár fyrir þá sem eru að greiða niður lán en áttu íbúð fyrir. Þeir sem keyptu fyrstu eign í þeirri leið geta farið yfir í hina og notið samanlagt tíu ára heimildar úr báðum leiðum. Leiðirnar tryggja valfrelsi sem er lykilatriði þar sem hver og einn velur hvað hentar honum best. Í grunninn er um að ræða val á milli sparnaðar til að eiga fyrir útborgun eða höfuðstólsleið til að lækka skuldir og þar með greiðslubyrði.

Mikilvægt er fyrir ungt fólk sem velur þessa nýju leið til að fjármagna húsnæðiskaup að skilja samspilið við eftirlaunin, sem minnka með því að nota séreignarsparnaðinn núna og á næstu árum. Hjá einstaklingi sem byrj­ar snemma að safna í séreign geta eftirlaun orðið hærri en laun við starfs­lok. Þess vegna getur verið skynsam­legt að nýta hluta af séreignar­sparn­að­inum fyrr og draga úr húsnæðisút­gjöldum yfir starfsævina. Ungt fólk sem greiðir í séreign og fullnýtir úrræðið til að spara frá 25 til 34 ára aldurs fær þrátt fyrir það mjög hátt hlutfall af launum við starfslok. Þó má ekki gleyma því að séreignar­sparn­aðurinn hverfur ekki þrátt fyrir að hann sé nýttur til fjármögnunar húsnæðis. Hann verður einungis að annarri eign í hús­næði. Ávöxtun hans með skattfrels­inu skilar sér í lægri skuldum og lægri vaxtabyrði af húsnæði en ella. En hver og einn verður að meta kostina fyrir sig. Ég tel þetta stórt framfaraskref fyrir ungt fólk sérstaklega og í anda sjálf­stæðisstefnunnar.

Höfundur er alþingismaður og sækist eftir 2.-3. sæti í prófkjöri Sjálfstæðis­flokksins í Suðvesturkjördæmi.

Greinin birtist í 3. tbl. Fjarðarfrétta, 1. sept. 2016.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2