fbpx
Fimmtudagur, apríl 25, 2024
HeimFréttirMóðir 12 mánaða barns kemst ekki í vinnu vegna skorts á dagforeldrum

Móðir 12 mánaða barns kemst ekki í vinnu vegna skorts á dagforeldrum

Biðlistar hjá dagforeldrum í Hafnarfirði

Móðir 12 mánaða barns hefur ekki vistun hjá dagforeldi fyrir barnið sitt og kemst því ekki í vinnu. Segir hún marga á bið­lista og fleiri í sömu sporum.

Hitti hún bæjarstjóra og fulltrúa sviðsstjóra fjölskyldu­þjón­ustu í vikunni sem hún segir hafa getað hjálpað henni. Henni hafi þó af sviðsstjóranum verið bent á að sækja um vinnu í leik­skólum bæjarins og þá gæti hún feng­ið inni fyrir barnið en leik­skólastjórar segjast ekki taka börn inn fyrr en 18 mánaða gömul að sögn konunnar.

Eftir að frétt um málið birtist í prentuðu blaði Fjarðarfrétta í dag hafði samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar samband við blaðið og gagnrýndi fréttaflutninginnn og taldi vinnubrögð óvönduð. Vísaði hann í upplýsingar sem ekki lágu fyrir fyrr en eftir að blaðið fór í prentun og ásökunum um óvönduð vinnubrögð vísað til föðurhúsanna.

Í fréttinni segir konan að henni hafi verið bent á atvinnu­leysisbætur en hún segist ekki geta tekið vinnu sem býðst ef barnið fær ekki pössun. Í athugasemd samskiptastjórans er sagt að ekkert þeirra sem á fundinum var hafi boðið henni þann kost en atvinnuleysisbætur hafi komið til umræðu þegar rætt var um kosti í stöðu konunnar.

Foreldrar fá ekki niðurgreiðslur fyrir að vera heima

Segir hún undarlegt að Hafn­arfjarðarbær er tilbúinn að greiða t.d. öfum og ömmum sama og niður­greiðsla til dagforeldra er en ekki beint til foreldra.

Móðirin er að koma úr fæðingarorlofi og hélt að auðvelt ætti að vera að fá pláss hjá dagmóður en annað hafi verið uppi á teningnum.

Hún vann á leikskóla á Ísafirði fyrir barnsburð og fluttist til Hafnarfjarðar. Hún kemst ekki í vinnu þar sem hún fær ekki gæslu fyrir barnið en starfsfólk vantar á leikskóla bæjarins.

Til að fá atvinnuleysisbætur þarf hún að vera í atvinnuleit svo hún er í mjög erfiðri stöðu og gerir fjárhagsstöðu fjölskyldunnar erfiða. Bærinn niður­greiðir vistun hjá dagmæðrum um 64 þúsund kr. á mánuði og hún getur ekki fengið þá upphæð til að vera heima hjá barninu. Þó upphæðin sé lítil er hún betra en ekkert að sögn konunnar. Hins vegar gætu t.d. afi og amma sem pössuðu barnið fengið þá upphæð en þar sem slíkum er ekki til að dreifa í tilfelli fjölskyldunnar er hún í vanda.

Finnst móðurinni að henni hafi ekki verið sýndur mikill skilningur á fund­inum. Sagði hún greinilegt að yfirvöld þekktu stöðuna ekki mikið enda hafi bæjarstjóri ekki vitað að biðlistar væru hjá dagmæðrum.

Hafnarfjarðarbær býður möguleika

Eftir að blaðið fór í prentun sendi samskiptastjóri Hafnarfjarðarbæjar foreldrum póst og upplýsti að allavega tveir leikskólar vildu fá umsókn frá henni og yrði af ráðningu þá fengi barnið leiksskólapláss á viðkomandi leiksskóla samkvæmt þeim forgangi sem Hafnarfjarðarbær getur veitt starfsfólki þeirra leiksskóla. Það gæti tryggt barninu pláss nánast strax.

Þá var upplýst að tveir dagforeldrar væru að hefja störf 1. mars þar sem sjö pláss opnuðust og væri barninu tryggt eitt af þeim plássum.

Auk þess væri einn annar kostur í skoðun þar sem pláss hjá dagforeldri gæti verið að losna.

Segir í póstinum að málið hafi verið unnið eins hratt og unnt var.

Ekki val um vinnustað?

Móðirin sagði í samtali við Fjarðarfréttir að hún vilji sjálf geta ráðið því hvar hún vinnur og það eigi ekki að ráðast af því hvernig ástand er í dagvistunarmálum í bæjarfélaginu.

Ummæli

Ummæli

Tengdar greinar
- H1 -

Nýjustu greinar

H2